Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Synjun námsstyrkjanefndar um greiðslu á námsstyrk

Ár 2013, miðvikudagurinn 8. maí, var kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneytinu svofelldur

ÚRSKURÐUR:

I.

Kröfur aðila.

Þann 22. nóvember 2012 var kærð meint ákvörðun námsstyrkjanefndar til mennta- og menningarmálaráðuneytisins með tölvubréfi. Við nánari skoðun kom í ljós að meint ákvörðun námsstyrkjanefndar var í raun tölvupóstur frá starfsmanni nefndarinnar sem fól ekki í sér stjórnvaldsákvörðun. Var málinu vísað til námsstyrkjanefndar til þóknanlegrar meðferðar. Námsstyrkjanefnd tók ákvörðun í málinu þann 11. febrúar sl. Með tölvubréfi sem barst ráðuneytinu þann 19. febrúar sl. kærði A (hér eftir nefnd kærandi) fyrrnefnda ákvörðun námsstyrkjanefndar ( hér eftir nefnd kærði), dags. 11. febrúar sl., um að synja umsókn hans um greiðslu námsstyrks fyrir skólaárið 2011-2012 skv. lögum um námsstyrki nr. 79/2003 og reglugerð um námsstyrki nr. 692/2003, með áorðnum breytingum.

 

Með hliðsjón af gögnum málsins er krafa kæranda skilin þannig að þess sé krafist að ákvörðun kærða verði felld úr gildi og honum verði úrskurðaður námsstyrkur fyrir skólaárið 2011-2012.

Af hálfu kærða má skilja sem svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

II.

Málsatvik.

Kærandi, sem stundaði nám við Fjölbrautarskólann N, sótti um námsstyrk skv. lögum um námsstyrki og reglugerð um námsstyrki fyrir skólaárið 2011-2012. Með bréfi kærða, dags. 11. febrúar sl., var umsókninni synjað á þeim grundvelli að gögn þar sem sýnt var fram á búsetu kæranda á námstímanum lágu ekki fyrir 1. september 2012 en skv. 2. mgr. 3. gr. reglugerðar um námsstyrki nr. 692/2003 er síðasti dagur til að skila inn gögnum 1. september ár hvert vegna námsársins á undan.

 

Með tölvubréfi, dags. 19. febrúar sl., skaut kærandi ákvörðun kærða til ráðuneytisins. Samkvæmt 5. gr. B-liðar forsetaúrskurðar nr. 100/2012 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands sem er kveðinn upp með vísan til 15. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og laga um Stjórnarráðið nr. 115/2011 kemur fram að mennta- og menningarmálaráðuneyti fari með námsaðstoð, þar á meðal: námslán og námsstyrki. Ákvörðun nefndarinnar er því réttilega kærð til mennta- og menningarmálaráðuneytisins og barst hún ráðuneytinu innan kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

III.

Málsmeðferð.

Stjórnsýslukæra kæranda var móttekin eins og fyrr greinir, 19. febrúar sl. Með bréfi, dags. 5. mars 2013, leitaði ráðuneytið umsagnar kærða um kæruna. Umsögn kærða barst þann 25. mars 2013. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 27. mars 2013, voru athugasemdir kærða kynntar kæranda og honum gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

IV.

Málsástæður og lagarök kæranda.

Í stjórnsýslukærunni kemur fram að kærandi hafi stundað nám við N. Hann hafi sótt um jöfnunarstyrk í janúar 2012 fyrir haustönn 2011 og vorönn 2012. Hann hafi sent öll umbeðin gögn með umsókn sinni. Hann hafi aldrei fengið póst frá kærða um að ekki hafi verið hægt að opna viðhengið með umsókn hans. Það hafi einungis komið fram í september 2012 þegar kærandi hafi spurt um hvenær hann fengi greitt. Í nóvember hafi kærandi svo fengið tölvupóst frá starfsmanni nefndarinnar þar sem fram kom að hann fengi ekki jöfnunarstyrk. Kærandi kærði þá ákvörðun til ráðuneytisins sem sendi beiðnina til jöfnunarstyrksnefndar og óskaði þess að nefndin tæki ákvörðun í málinu. Nefndin tók ákvörðun í málinu þann 11. febrúar sl. þar sem kæranda var synjað um styrk á grundvelli 2. mgr. 3. gr. reglugerðar um námsstyrki þar sem gögn er sýndu fram á búsetu kæranda á námstímanum lágu ekki fyrir 1. september 2012.

 

Kærandi bendir á að hann hafi margoft haft samband við starfsmenn jöfnunarstyrksnefndar og ítrekað sent þeim umbeðin gögn. Hann leggur fram tölvupósta sem staðfesta þessi samskipti sem og öll umbeðin gögn.

 

Kærandi vísar til þess að hann hafi veitt öll umbeðin gögn og samkvæmt þeim eigi hann rétt á jöfnunarstyrki fyrir haustönnina 2011 og vorönnina 2012.

 

V.

Málsástæður og lagarök kærða.

 

Í rökstuðningi fyrir hina kærðu ákvörðun, sbr. bréf kærða, dags. 12. mars sl. en móttekið 25. mars 2013, segir að með aðstoð upplýsingatæknideildar lánasjóðsins hefur verið reynt að fá úr því skorið hvort umrætt gagn hafi borist án þess að vera skráð. Engin merki eru um að viðhengið hafi borist sjóðnum.  Kærði ítrekar þá fyrri afstöðu sína sbr. úrskurð hans dags. 11. febrúar sl. þar sem kæranda var synjuð um námsstyrk á grundvelli 2. mgr. 3.gr. fyrrgreindrar reglugerðar.

 

VI.

Rökstuðningur niðurstöðu.

 

Um skilyrði laga um námsstyrki, nr. 79/2003.

Í lögum um námsstyrki er mælt fyrir um skilyrði styrkveitinga. Samkvæmt 2. gr. laganna njóta þeir nemendur sem stunda reglubundið framhaldsskólanám hér á landi og verða að dveljast fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins réttar til námsstyrkja. Í 8. gr. laganna segir að mennta- og menningarmálaráðuneytið setji reglugerð er mæli nánar fyrir um hvernig lögin skuli framkvæmd.

Reglugerð um námsstyrki nr. 692/2003.

Ráðherra hefur mælt nánar fyrir um framkvæmd laganna. Við móttöku framangreindrar stjórnsýslukæru var í gildi reglugerð nr. 692/2003, með síðari breytingum, sem kærði hefur byggt á við úrlausn máls þessa. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar eiga nemendur á framhaldsskólastigi sem fullnægja tilgreindum skilyrðum rétt til námsstyrkja til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun vegna búsetu svo sem nánar er kveðið á um í reglugerðinni.

Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar kemur fram að námstyrkjanefndin auglýsi eftir umsóknum fyrir 1. september ár hvert og skulu umsóknir vegna haustannar hafa borist nefndinni fyrir 15. október sama ár. Nefndin skal auglýsa eftir umsóknum vegna vor- og sumarannar fyrir 1. janúar ár hvert og skulu umsóknir hafa borist nefndinni fyrir 15. febrúar sama ár. Námsstyrkjanefnd er heimilt að veita umsókn viðtöku eftir auglýstan umsóknarfrest og skerða þá styrkinn um einn hundraðshluta fyrir hvern dag fram yfir frestdag, þó að hámarki um 30 hundraðshluta samtals. Berist umsókn meira en 30 dögum eftir auglýstan umsóknarfrest skal hún tekin til afgreiðslu með umsóknum næstu annar og mögulegur styrkur koma til útborgunar í lok þeirrar annar. Nefndinni er óheimilt að taka við umsókn sem berst meira en fjórum mánuðum eftir auglýstan umsóknarfrest. Þrátt fyrir þetta skal réttarstaða allra umsækjanda taka mið af skráningu í þjóðskrá þann dag sem auglýstur umsóknarfrestur rennur út. Síðasti dagur til að gera athugasemdir eða skila inn gögnum er 1. september ár hvert vegna námsársins á undan.

Niðurstaða.

Í málinu liggur fyrir undirrituð yfirlýsing vegna dvalar á námsstað kæranda, sem deilt er um hvort að legið hafi fyrir 1. september 2012.

Í 7. gr. stjórnsýslulaga má finna svokallaða leiðbeiningarreglu stjórnvalda. Í henni felst m.a. að veita beri aðila þær leiðbeiningar sem honum eru nauðsynlegar svo að hann geti gætt hagsmuna sinna á sem bestan hátt. Í leiðbeiningarskyldu stjórnvalda felst ekki eingöngu skylda til að svara fyrirspurnum frá málsaðilum. Í þeim tilvikum þar sem stjórnvaldi má vera ljóst að aðili hefur misskilið réttarreglur, ekki skilað inn nauðsynlegum gögnum, ekki veitt nægjanlega ítarlegar upplýsingar eða hefur að öðru leyti bersýnilega þörf fyrir leiðbeiningar, ber stjórnvaldi að gera aðila viðvart og veita honum viðeigandi leiðbeiningar.

Í þessu máli taldi kærandi sig hafa skilað inn nauðsynlegum gögnum eins og má sjá glögglega á tölvupóstsamskiptum hans við kærða. Kærandi fékk ekki leiðbeiningar þess efnis að gögn hans hafi ekki verið móttekin né leiðbeiningar frá stjórnvaldi um afleiðingar vanrækslu á að skila gögnum innan tilskilins frests. Það er því mat ráðuneytisins að í ljósi ónægjanlegra leiðbeininga af hálfu kærða að frestákvæði í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar eigi ekki við. Því ber að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi eins og nánar greinir í úrskurðarorðum og lagt fyrir námsstyrkjanefnd að taka málið fyrir að nýju.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun námsstyrkjanefndar um að synja A um námsstyrk fyrir skólaárið 2011-2012, dags. 11. febrúar 2013, er felld úr gildi. Lagt er fyrir námsstyrkjanefnd að taka málið fyrir að nýju með hliðsjón af þeim sjónarmiðum er framkoma í úrskurði þessum.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum